Vasabræður 2004
Forsíða
Dagbók
Fróðleiksmolar
Leiðarlýsing
Vasa-vísan

Vasaloppet.se
Á keppnisdag

(Tölvupóstfang bræðranna hefur verið aftengt)

Aðsend hvatningarvísa:
Eiðabræður einbeittir
eru menn sem þora.
Gangið hægt um gleðidyr
en gallharðir til Mora!
Össur Kristinsson

Fara á vef Vasahlaupsins

Leiðarlýsing!

Gangan hefst á bökkum árinnar Västerdalälven hjá bænum Berga rétt sunnan við Sälen. Þar er keppendum raðað upp í 10 afgirta ráshópa. Í fremri básana er raðað köppum sem hafa unnið sig upp og náð góðum tímum í fyrri göngum en fremstir eru keppnismenn í heimsklassa, svokölluð "elítugrúppa".

Tíundi og síðasti ráshópurinn er stærstur og liggur lengst frá markinu. Þeir sem eru að hefja Vasagönguna í fyrsta skipti eru kallaðir "bláber" og er þeim skipað þarna á bás. Það verður hlutskipti okkar bræðra að hefja gönguna þarna innan um ótölulegan grúa göngumanna af öllum gerðum, aldri og þjóðerni. Þarna eru flestir sem taka þessu sem ævintýri og með brosi á vör fremur en af alvöru. Metnaður flestra stendur ekki til annars en að komast klakklaust á leiðarenda í lok dags. Það eru fleiri en við sem förum langan veg að vinna frækilega sigra. Meðal annarra mun þarna verða kappi frá Suður Afríku. Hann ku hafa þurft að glíma við umtalsvert snjóleysi á undirbúningstímanum.

Þegar rásmerkið er gefið skömmu eftir dagrenningu sunnudaginn 7. mars klukkan 8 stundvíslega er girðingunum sem loka markinu og aðskilja hópana lyft upp og skriðan flæðir af stað. Áður hafa stæltar en kappklæddar stúlkur á pöllum aftur eftir árbakkanum staðið fyrir upphitunarleikfimi fyrir stirða og kuldabitna þátttakendur. Að því búnu kasta menn hlífðarklæðum, troða þeim í númeraða plastpoka sem eru fluttir til Mora meðan á göngunni stendur ásamt tösku með þurrum fötum til að klæðast í eftir gönguna. Göngumenn sem búa lengra frá Berga og Sälen þurfa að vakna snemma. Við sem búum í Mora þurfum t.d. að vakna um klukkan 3.30 um nóttina en fyrstu göngumenn eru að koma á svæðið um klukkan 6 um morguninn eða vel fyrir birtingu.

Þegar bláberin hafa gengið um 500 metra fara þau yfir ráslínuna og um kílómeter síðar beygir brautin til hægri yfir þjóðveginn og þrengist og þar lenda menn í gríðarlegri kös sem situr fyrst í stað föst en mjakast svo löturhægt upp þriggja kílómetra langa brekku upp á heiði. Þarna eru mikil þrengsli og þvaga og verður að gæta vel stafa og skíða en flestir eru í góðu skapi, taka þessu með brosi á vör og hliðra til hver fyrir öðrum. Þegar upp á heiðina er komið hefur skíðasporunum fækkað úr 56 í 6 sem verður sporafjöldinn það sem eftir er leiðarinnar til Mora. Það tekur um þrjú korter til klukkutíma fyrir "bláberin" að ná upp brekkuna en hún stendur ekki fyrir keppnismönnunum og eru þeir þegar hér er komið búnir með fjórðung leiðarinnar í mark.

Fyrri hluti leiðarinnar

Eftir 10,5 kílómetra göngu um sléttar heiðar er komið að fyrsta áningarstað Smågan þar sem göngumenn fá bláberjasúpu, orkudrykk og vatn auk lítilla hveitibolla. Á áningastöðunum veður maður um í tómum pappaglösum þeirra sem á undan eru farnir. Til Smågan verður maður að ná fyrir klukkan 10.30 en þá er leiðinni lokað með snúru.

Klári maður sig í gegnum þetta fer bráðum að halla aðeins austuraf og eftir 23,7 kílómetra er komið til Mångsbodarna. Það er fyrsta byggða bólið á leiðinni því Smågan er bara byggð kringum keppnina. Frá Mångsbodarna verða menn að komast fyrir klukkan 11.45 en þá er lokað. Fer nú að hlýna í lofti ef að líkum lætur yfir hádaginn.

Meðfram allri brautinni eru áhorfendur og stuðningsmenn keppenda eða klúbba sem keppa innbyrðis. Víða eru kveiktir varðeldar sem leggur frá reyk og ilm af brunnu birki. Vélsleðafólk í hópum er algengt einkum framan af. Þarna er músík og jafnvel klúbbastarfsemi s.s. Rotary og Lions.

Hallar nú talsvert undan en hækkar svo aftur og eftir 34,5 kílómetra er komið till Risberg. Þar er brautinni lokað klukkan 13.00 og framundan bíður Evertsberg 47,1 kílómeter frá rásmarki. Hérna er gangan rúmlega hálfnuð og vonir taka að glæðast ef hægt verður að komast héðan fyrir lokun klukkan 14.30. Hallar nú talsvert undan og gildir að nota vel rennslið til hvíldar.

Seinni hluti leiðarinnar

Þegar 61,7 kílómetrar eru að baki er komið í Oxberg. Þaðan er hollast að vera kominn fyrir klukkan 16.05. Þyngist fyrir fæti þegar þreytan sígur í limina en eftir áningu í Hökberg að lokinni 70,9 kílómetra göngu fer hugurinn að bera mann áfram æ meira.

Þegar líður á gönguna verður að halda áfram að innbyrða skammtinn sinn af bláberjasúpu, drykk og annarri næringu hvað sem matarlystin segir. Lystin er mörgum þrotin þegar 81,1 kílómetrar eru að baki og komið er til síðasta áfangastaðarins Eldris en þá ríður á að pína þetta ofan í sig því ekki dugir að verða orkulaus á lokakaflanum. Hér hefur kaffi bæst á matseðilinn. Tekur nú húmið að síga yfir og kuldinn að aukast að nýju.

Það er verulega tekið að skyggja þegar tíutímamenn eru að koma út úr skógunum um sexleytið og renna sér niður í Moragarðinn undir brúna og síðustu metrarnir eru píndir úr fótunum. Erfiðasta brekka göngunnar er hallinn upp úr garðinum framhjá kirkjunni og inn á aðalgötuna þar sem lokasprettur keppnismanna fór fram fyrir sex klukkutímum! Við það að sjá markið með skiltinu "I fädernas spår för framtidens segrar" leysist úr læðingi hulin orka þannig að stíllinn batnar, höfuðið og bringan lyftist og léttleikinn eykst til muna síðustu metrana í MARK!

Að göngu lokinni er sigurvíman fljót að víkja fyrir vaxandi stífleika í öllum limum en ánægjan hríslast þó um þreyttan skrokkinn í rútunni sem ber okkur í þann skóla sem okkur er ætlaður. Þar bíða pokinn og taskan frá því um morguninn á hlaðinu fyrir framan dyrnar og inni bíður kærkomin sturta og matur sem gerð eru góð skil. Þá er tilbúið blátt staðfestingarskjal með göngutíma og öllu og hægt að kaupa gylltan ramma með gleri fyrir herlegheitin.

Að þessu loknu eru það svo þreyttir en sælir menn sem halda af stað í náttstað að leita frétta af hinum í hópnum, segja ferðasögur og fagna hverju því afreki sem unnið hefur verið yfir daginn. Morguninn eftir er ekki til setu boðið og vaknað fyrir allar aldir til þess að halda á leið til Arlandaflugvallar til þess að ná flugi heim til elskunnar og barnanna ef þau vilja þá kannast við þessa rugluðu karla sem taka upp á svona uppátækjum.

Stefán